149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Í málflutningi hv. þingmanna Miðflokksins hefur ítrekað verið vísað í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og í bréfi sínu til utanríkisráðherra áréttuðu þeir sömu sérfræðingar út frá túlkun m.a. Miðflokksins af gerð þeirra að í fyrsta lagi enginn lögfræðilegur vafi væri á að sú leið sem lögð væri til væri í samræmi við stjórnarskrá, og það skiptir mestu máli í þessu, og að þeir ágallar sem þeir teldu á þessari leið lytu eingöngu að því hvort upptaka eða innleiðing gerðarinnar með þessum hætti væri tilefni til athugunar af hálfu ESA sem þau telja ólíklegt. Þar er sérstaklega áréttað varðandi lagalega fyrirvarann, sem svo mikil leit er gerð að, að hann er að finna í lagafrumvarpi hæstv. ferðamála- og iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) sem er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Ég skil ekki af hverju ítrekuð leit Miðflokksins að þessum lagalega fyrirvara hefur svo litlu skilað. Það er beinlínis áréttað í svari sérfræðinganna (Forseti hringir.) sem Miðflokkurinn hefur í umræðunni ítrekað vísað í hvar hann sé að finna.