149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þingmaður aðhyllist eina af fjölmörgum kenningum um hvar fyrirvarana sé að finna. Þetta er ein af mörgum sem bornar hafa verið fram hérna.

Hv. þingmaður vísaði til bréfs tvímenninganna sem er dagsett 10. apríl. Yfirlýsing þeirra í fyrsta lið vísar til mögulegs áreksturs við stjórnarskrá. Gott og vel, þeir hafa skýrt það, sérstaklega Friðrik Árni í viðtali við vefmiðilinn mbl.is, að með þeim hætti sé gildistöku frestað og í raun og veru stjórnskipunarvandanum skotið inn í framtíðina. En þá er eftir annar vandi og þeir gera grein fyrir honum. Hv. þingmaður sagði réttilega að þeir hefðu sagt í bréfi sínu að þeir teldu ólíklegt að ESA myndi hreyfa andmælum, en þeir vekja hins vegar (Forseti hringir.) máls á því í áliti sínu að við gætum staðið frammi fyrir skaðabótamáli af hálfu erlends fyrirtækis vegna samningsbrota. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður er í fullum færum til að gera sér í hugarlund hvaða fjárhæðir gæti verið um að tefla ef við töpuðum slíku máli sem þeir virðast greinilega telja ekki fjarri lagi á blaðsíðu — nú man ég ekki nákvæmlega blaðsíðuna. Afsakið, forseti, en þetta er í neðanmálsgrein 62.