149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir sína ræðu. Hann fór nokkuð ítarlega yfir dóminn í Noregi, Hjemfalls-dóminn frá ESA, sem fjallaði um leyfi til að kaupa vatnsréttindi. Ég spyr mig hvort við séum að falla í sömu gryfju hér á landi þar sem við höfum orðið óþægilega mikið vör við það að alls konar aðilar, sérstaklega erlendir aðilar, hafa verið að kaupa upp jarðir. Þeir kaupa gjarnan upp jarðir sem hafa þann eiginleika að mögulega er hægt að virkja læki og ár sem renna í gegnum jarðirnar. Það er vitað að hægt er að setja upp 9,9 MW virkjanir, ef ég man rétt, án þess að það fari í umhverfismat og þegar það er fengið er hægt að stækka slíka virkjun upp í 30 MW. Ég sé fyrir mér að þetta sé einkar lunkinn vinkill sérstaklega fyrir þann sem vill eignast vatnsréttindi og hafa eitthvað um það að segja hvernig þeim málum er háttað. Sér hv. þingmaður fyrir sér að slíkur dómur eða slík málsmeðferð, ég veit ekki hvaða orð ég á að nota, gæti orðið hér á landi ef við vöndum okkur ekki í þessari innleiðingu?