149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er einmitt stórmerkilegt mál. Nú erum við með tvær áhugaverðar sviðsmyndir í Noregi, annars vegar á að taka fyrir fyrirvarana 23. september í Noregi og hins vegar er þessi dómur sem segir að okkur beri að vanda okkur.

Hv. þingmaður ræddi um breska fjárfesta. Það er ekki nóg með að þeir séu búnir að tryggja fjármögnun heldur hafa þeir hagað sínum málum þannig að þeir fái styrk frá Evrópusambandinu. Það liggur allt svo ljóst fyrir að það er með ólíkindum að við ætlum ekki að vanda okkur. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji að jarðakaup erlendra aðila hér spili einhverja rullu.