149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:07]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir prýðisræðu sem var upplýsandi. Þingmaðurinn kom inn á dóm í Noregi sem fjallar um vatnsréttindi og fleira. Við erum að tala um reynslu Norðmanna af innleiðingu pakkans síðan þeir innleiddu hann, sem er reyndar stuttur tími, og hvað við getum lært af þeirri stuttu reynslu. Mig langar að spyrja þingmanninn hvaða lærdóm við getum tekið út úr reynslu Norðmanna af innleiðingu pakkans.

Eins kom mér í hug þegar þingmaðurinn var í andsvari áðan við hv. þm. Þorstein Víglundsson sem spurði, ef ég umorða það: Hvað óttist þið í sambandi við pakkann? Er þetta ekki allt upplýst? Mér fannst hv. þm. Ólafur Ísleifsson fara vel yfir það í megindráttum í svari. Það er stuttur tími í andsvör.

Það sem hefur kannski vantað inn í og mig langar að spyrja þingmanninn: Við tölum um að þjóðin skiptist í tvennt í sambandi við þennan orkupakka, að þjóðin hafi skoðanir á því hvað sé rétt og hvað sé rangt. Við nefndum hér að kynna þyrfti það fyrir þjóðinni og mér finnst það hljóma mjög vel. En það yrði að vera frekar ópólitískt þannig að það yrði upplýsandi kynning um staðreyndir. Er það ekki eitthvað sem okkur ber skylda til, að upplýsa þjóðina? Því að þjóðin treystir pólitíkinni takmarkað en hlustar á staðreyndir.