149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Já, frændur okkar Norðmenn. Stundum eru frændur frændum verstir en þeir eru líka ágætir.

Ég sagði það einhvern tíma þegar við vorum að þrátta um inngöngu Íslands í ESB að þar sem Ingólfur Arnarson var kominn frá Noregi hefði hann örugglega ekki siglt til Íslands og numið þar land til að ganga svo í Evrópusambandið nokkrum árum seinna. Ég held að við verðum í smæð okkar, sem örþjóð, að halda uppi sjálfsvirðingu okkar þótt við séum lítil. Við megum ekki hafa minnimáttarkennd gagnvart eigin ágæti og þeim miklu, dýrmætu og ómetanlegu auðlindum sem við búum yfir. Þar á meðal er vatnsorkan sem ég myndi segja að væri grundvallaratriði og, eins og ég sagði í morgun, hryggjarstykkið í okkar auðlindum. Það er vatnsorkan. Við erum akkúrat að fjalla um hana í þessu máli, það er svo stórt að það hálfa væri nóg.

Þingmaðurinn minntist á Carl Baudenbacher, að hann liti jafnvel á Ísland sem aukaatriði en jafnframt væri okkur samt skylt að innleiða þennan orkupakka. Ég segi nú bara: Réttum úr bakinu (Forseti hringir.) og stöndum með sjálfum okkur. Okkur er ekkert skylt. Við tökum ákvarðanir út frá okkar eigin hagsmunum í þessu máli.