149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:32]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Það var ekki nein bein spurning í andsvarinu en þingmaðurinn tók undir og áréttaði það sem sá sem hér stendur talaði um, sjálfsvirðinguna og að standa bein í baki og annað slíkt, sem við erum að gera í þessu máli, koma öllum spurningum frá þannig að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun.

Það sem við höfum oft vitnað til í ræðum eru 102. og 103. gr. í samningnum um að mál fari aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þær getum við nýtt. Það setur EES-samninginn ekkert í uppnám. Það höfum við fengið upplýst. Það hefur reyndar ekki reynt á það síðan 1992 þegar samningurinn var tekinn upp en einu sinni verður allt fyrst. Því ekki að láta reyna á það núna í svona gríðarlega stóru máli? Ég myndi segja að þetta væri eitt stærsta málið sem upp hefur komið síðan við gerðum EES-samninginn.

Þingmaðurinn kom inn á öflugan málflutning manna og kvenna sem hafa andæft í þessu máli og það er greinilegt og ég hef fylgst með því — ég er nýkominn úr fríi — í fjölmiðlum hvað sá málflutningur hefur dýpkað, spurningum fjölgað og meiri upplýsingar um álitamál komið upp. Þó að menn tali um málþóf er ekki þar með sagt að það eigi við nokkur rök að styðjast að þetta sé málþóf. Þetta er bara nauðsynleg umræða til þess að upplýsa og til að koma þeim spurningum frá sem ætíð vakna í þessu máli.