149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:34]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir ræðu hans, sem var ágæt. Hann veltir fyrir sér ýmsum vinklum og þar með talið t.d. þeim stofnunum sem stjórnmálaflokkar búa yfir, sem eru innsti kjarni hvers stjórnmálaflokks sem heldur reglulega fundi og leggur þar nokkurn veginn línurnar og komandi áherslur, ef maður getur sagt sem svo.

Það er merkilegt að stjórnarflokkarnir, alla vega Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, gott ef ekki Vinstri grænir líka, höfðu það allir í sínum ályktunum að vera ekki með innleiðingu á orkupakka þrjú. Við getum tekið það saman þannig þegar þeir hafna því að það eigi að versla með auðlindir landsins. En það mun sannarlega eiga sér stað núna þegar við innleiðum orkupakka þrjú og svo í framhaldinu orkupakka fjögur. Það hefur komið fram að í Noregi er líka svokölluð pólitísk „dílemma“, getum við kallað það, þar sem hægri flokkurinn er Evrópuflokkur með Ernu Solberg sem forsætisráðherra. Það gengur á ýmsu þar.

Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé ekki alveg vitandi vits um að okkur ber að biðja um frestun á okkar málum þangað til búið er að leiða til lykta það sem er í gangi í Noregi.