149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:38]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þingmaður komast vel að orði áðan þegar hann fjallaði um að við værum með lögformlegt samstarf í gegnum EES-samninginn. Það er einmitt það sem það er. Þá er spurning hvort það sé meira lögformlegt en pólitískt eða hvort við getum lagt það að jöfnu. Við höfum verið með á pólitískri yfirlýsingu EFTA-ríkjanna og þann vagn dregur Evrópuflokkur í Noregi. Það er svolítið áhugavert að velta fyrir sér hvort það sé þannig með okkar stjórnarflokka, enginn þeirra er nú Evrópuflokkur að því er ég best veit, þótt þeir stefni hraðbyri þangað eins og augljóst er. Er verið að teyma okkur? Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort við séum að láta teyma okkur í blindni þar sem við höfum Evrópusinnaðan hægri flokk í Noregi. Er hann að teyma okkur í þá átt sem honum hugnast best? Erum við eins og hesturinn með blindu til hliðar og náum ekki að sjá heildarmyndina og látum bara teyma okkur ?