149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa spurningu. Það eru oft settar hlífar til hliðar við augun á vagnhestum svo að þeir sjái bara beint fram. Þeir sjá ekkert út frá sér. Það getur vel verið að það sé ágætislíking í þessu sambandi þegar málið er rætt hjá þeim sem vilja koma því í gegn. Ég er algjörlega sammála því.

Það er miður vegna þess að við höfum allt til alls í sambandi við þessi mál hér heima. Við erum búin að byggja upp raforkuframleiðslu og raforkuflutning. Þótt raforkuöryggismálum sé ábótavant eru þau á þokkalegri leið. Við þurfum ekkert að fá aðra aðila til að leiðbeina okkur eða stjórna okkur í því. Við getum alveg séð um það sjálf.

Það er eitt að vera í samstarfi og annað að láta segja sér til. Þegar maður gerir samning er hann gerður með meðvitund beggja og síðan halda báðir aðilar sinni sjálfsvirðingu. Það er ekki þannig með samning að maður afsali sálu sinni, maður hlýtur að fá að halda henni. Mér finnst við í þessu máli vera að selja sál okkar ef við förum inn á þessa leið. Það er bara alls ekki nógu gott. Við erum sjálfstæð þjóð og við eigum að vera það áfram. Við eigum að vera stolt af því. Þó að við séum í góðu samstarfi við aðrar þjóðir þá þýðir það ekki að við þurfum að framselja vald okkar til þeirra, þó að litlu leyti sé í sumum málum, og alls ekki í þessu stóra máli.