149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég ætla í ræðu minni að koma stuttlega inn á hagsmuni almennings af innleiðingu þriðja orkupakka. Það var töluvert látið með það á fyrstu stigum málsins að undir lægi mikið hagsmunamál heimila í landinu og við efasemdarmennirnir í Miðflokknum værum að leggja stein í götu þess að heimili landsins fengju búið við hagkvæmara orkuumhverfi og lægra verð, tryggara afhendingaröryggi og þar fram eftir götunum.

Það tók töluverðan tíma að tosa út úr stjórnvöldum og fyrirsvarsmönnum orkupakkans og stuðningsmönnum hans hér á þingi við hvað væri átt í þessu samhengi. Lengi var talað um aukna neytendavernd og gegnsæi. Það var svo sem gott og blessað en erfitt var að heimfæra það upp á þau gögn sem fyrir liggja í málinu. En eina svarið, held ég að ég geti leyft mér að segja, sem náðist upp úr hæstv. utanríkisráðherra þannig að með fullnægjandi hætti væri síðastliðinn föstudag þegar hann kom til viðræðna við okkur í þinginu í á þriðja tíma, sneri að því — og nú ætla ég að lesa upp úr svari hæstv. utanríkisráðherra sem hófst kl. 17.51 síðastliðinn föstudag, fyrir þá sem vilja fletta því upp. Þar segir ráðherrann, með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður spyr um neytendavarnirnar, en þetta aukasjálfstæði er raforkueftirlit Orkustofnunar.“

Hið bætta umhverfi heimilanna í landinu er sem sagt aukið sjálfstæði Orkustofnunar, eftirlitsaðilans á markaði. Það eina sem liggur fyrir í gögnum málsins varðandi áhrif breyttrar stöðu Orkustofnunar á innlend heimili er hækkað eftirlitsgjald. Annað er ekki í hendi.

Ráðherrann heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það er það sem það gengur út á.“

Þetta aukna eftirlit Orkustofnunar er það sem hagsmunir almennings ganga út á. Þetta er hálfgert þunnildi hvað hagsmuni almennings varðar.

Og ráðherrann heldur áfram.

„Viðkomandi raforkueftirlit fær meiri heimildir en það hefur núna til að ýta á eftir og hafa eftirlit með þessum þáttum.“

Ég verð að segja að ég reiknaði með meiru hvað hagsmuni heimilanna í landinu varðar, úr því að þessu atriði var flaggað svona rækilega eins og raunin var. Að fenginni reynslu er fátt tryggt með auknu eftirliti og hækkuðum eftirlitsgjöldum en einmitt sá hækkaði kostnaður sem því fylgir.

Hæstv. ráðherra sagði í sama svari, í málsgreininni á undan, 2. mgr. svarsins fyrir þá sem fletta þessu upp, með leyfi forseta:

„… og verð hefur lækkað samkvæmt úttektum frá tveimur aðilum.“ — Hann er þá að vísa í áhrif innleiðingar orkupakka eitt og tvö. — „Raforkusöluþátturinn hefur lækkað en af því að við höfum farið í framkvæmdir á burðarmannvirkjum og öðru slíku hefur flutningsþátturinn hækkað.“

Það sem skiptir heimilin í landinu máli er auðvitað heildarupphæð raforkureikningsins.

Það sem gerist með innleiðingu þessara reglna verður aukin krafa á innviðauppbyggingu fyrir nýja aðila í orkuframleiðslu sem ekki verður heimilt að yfirfæra kostnað af þeirri uppbyggingu beint yfir á þá aðila sem kalla á uppbyggingarþörfina. Sá kostnaður mun dreifast á neytendur í landinu, rétt eins og ráðherrann svaraði hér, af heiðarleika og sanngirni, þegar hann sagði að af því að við hefðum farið í framkvæmdir á burðarmannvirkjum og öðru slíku hefði flutningsþátturinn hækkað.

Þetta er kjarnaatriði, þ.e. hver heildarkostnaður heimila í landinu verður af raforkunotkun sinni, ekki að einhver einn þáttur lækki á meðan annar þáttur stórhækkar.