149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann kemur þar inn á afar mikilvægt mál í tengslum við innleiðingu orkupakkans og afleiðingar orkupakkanna hingað til, þ.e. eitt og tvö, fyrir hag almennings í landinu. Við höfum farið yfir þetta og ég hef gert það í ræðum mínum og sýnt fram á að raforkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu hefur hækkað umtalsvert frá því að við tókum upp tilskipanir Evrópusambandsins með innleiðingu orkupakka eitt, breytingu á raforkulögum 2003 og svo erum við komin á þann stað hér og nú að við þurfum að innleiða orkupakka þrjú sem felur í sér enn stærra skref, sem er að taka þátt í sameiginlegu markaðssvæði í Evrópu.

Við heyrðum það í ræðum þegar innleiðingin var á sínum tíma frá þeim sem voru gegn orkupakka eitt þegar hann er innleiddur árið 2003, þá hugnaðist mönnum alls ekki að markaðsvæða raforkukerfi landsmanna. Þar voru Vinstri grænir í fararbroddi og greiddu atkvæði gegn því. Að sjálfsögðu vill maður óska þeim til hamingju með það.

En á móti kemur að síðan, einhverra hluta vegna, eru þeir hins vegar fylgjandi því að markaðsvæða þetta enn frekar. Það eru því afskaplega miklar andstæður í málflutningi þeirra hvað þetta varðar.

En það sem mig langaði að koma inn á við hv. þingmann í þessu sambandi er að það hefur sýnt sig að orðum ráðamanna og ráðherra á þeim tíma var ekki treystandi. Því var haldið fram að raforkuverðið myndi ekki hækka. Þáverandi iðnaðarráðherra gerði það. Síðan kom allt annað á daginn. Er þá ekki viðbúið að við getum ekki treyst því sem hv. þingmenn og ráðherrar hafa sagt (Forseti hringir.) hér, að orkupakki þrjú komi ekki til með að hafa nein áhrif?