149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Maður vill ekki trúa því að það sé raunin en heimsókn hæstv. utanríkisráðherra sl. föstudag gerði samanlagt ekkert til að róa okkur efasemdarmennina um innleiðingu þriðja orkupakkans og ef eitthvað er voru menn enn einarðari í þeirri afstöðu sinni að það væri nauðsynlegt að taka nokkur skref til baka og skoða málið betur, fresta því fram á haust.

Ég sagði í útvarpsviðtali, á Bylgjunni í gær var það alveg örugglega, þeir renna dálítið saman dagarnir núna út af svo litlu, að þarna hefði hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson haft tækifæri til að slökkva algerlega á okkur Miðflokksmönnum hefði hann bara komið fram og svarað spurningum, fært rök fyrir afstöðu sinni og stjórnvalda og í rauninni skilið okkur eftir á þeim stað að fáum spurningum væri ósvarað. Vægast sagt klúðraðist það markmið hans, sem ég gef mér að hafi verið, fullkomlega. Það hefði sennilega ekki verið hægt að klúðra því verr því að eftir heimsókn hæstv. ráðherra voru í fyrsta lagi spurningarnar fleiri en þegar hann kom hingað og í rauninni hafði bæst við sú tilfinning að menn hefðu ekki hugsað málið til enda heldur hefðu þeir, eins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, kallaði það, komið sér niður á plan lofsverðra blekkinga í málinu, ætlað að tosa kanínu upp úr hatti og láta vandamálið hverfa.