149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að sjá forseta svo brattan á forsetastóli. Það var mjög athyglisvert sem hér kom fram áðan, að það ætti kannski að gefa þeim efasemdamönnum sem voru með miklar efasemdir fyrst í þessu máli, t.d. hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, möguleika á því að endurprógrammera sig og lesa sér aðeins betur til. Ég man ekki betur en t.d. að hæstv. forseti sem nú situr hafi verið algjörlega án sannfæringar þegar hann ræddi þetta mál á sínum tíma í þinginu, aldrei slíku vant, yfirleitt fylgir orðum hans mikill sannfæringarkraftur. En í þetta skipti fannst mér hann vera fjarlægur málefninu.

Ég hef trú á því að menn hafi frekar ánetjast þessu máli eins og þegar maður drekkur beiskan bikar. Þarna rétti utanríkisráðherra þingflokki Sjálfstæðisflokksins beiskan bikar. Ekki veit ég hvort hann hefur tekið flokkinn til altaris en hann hefur rétt honum beiskan bikar. Menn hafa látið sig hafa það að taka einn fyrir liðið eins og þar stendur. En ég er ekki viss um að hugur fylgi máli. Og ég er ekki viss um það heldur núna þegar í ljós kemur að meiri hluti þjóðarinnar er á móti málinu.

Ég vona að hæstv. forseti og fleiri góðir Sjálfstæðismenn hafi hitt flokksmenn sína sl. laugardag í 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins, ég þreytist ekki á að óska þeim til hamingju með það, og hafi heyrt ofan í það góða fólk hvað því finnst um þennan málatilbúnað. Því miður hef ég ekki haft spurnir af því, menn hafa verið frekar þögulir um þetta góða afmælispartý, en ég vona alla vega að menn hafi fengið þar nesti til að herða sig aðeins í málinu fyrir land og þjóð. Mig langar að fá hugleiðingar hv. þingmanns um þetta.