149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum lengi kallað eftir því í þessum umræðum, sem hafa staðið nokkra stund, að fulltrúar annarra flokka komi til fundar við okkur, þótt ekki væri nema til annars en að segja okkur hvar við höfum farið út af sporinu í þessu máli. Það hefur ekki gerst.

Síðan er annað, eins og hv. þingmaður segir réttilega, að komið hafa fram nýjar upplýsingar. Ég man ekki hvað þetta sæstrengsfyrirtæki heitir, hvort það heitir Atlantic SuperConnection eða eitthvað slíkt. Ég bið forseta afsökunar en ég held að heiti þessa fyrirbæris sé ekki á íslensku á heimasíðunni. Á heimasíðu þess fyrirtækis segir að það fyrirtæki sé í mjög góðu sambandi við ráðherra á Íslandi, þvert á flokka. Það er nú kannski lýsandi dæmi um þann samruna sem ég hef sagt að orðið hafi milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Mér er ekki alveg ljóst hvor flokkurinn hefur yfirtekið hinn. Þetta er alla vega ekki fjandsamleg yfirtaka. Það er næsta víst. Þetta er mjög friðsamlegt og kemst ekki hnífurinn á milli.

Svo er náttúrlega Framsóknarflokkurinn þarna með í för á smekkbuxunum með belti og axlabönd og álímda hárkollu, hártopp og nýja skó. Samanlagt eru þessir þrír flokkar að vinna að því, virðist vera, samkvæmt nýjustu fréttum, að koma Íslandi í beina tengingu við raforkukerfi Evrópu, landsmönnum til tjóns.

Og svo eru menn hissa á því að Miðflokksfólkið vilji ræða þetta.

Ég myndi eiginlega skora (Forseti hringir.) á þessa þingmenn að koma til fundar og segja okkur þá alla vega hvar við erum svona rosalega týndir í þessari umræðu.