149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta vekur upp margar spurningar. Og eins og hv. þingmaður nefndi réttilega virðist þetta fyrirtæki, sem fréttir bárust af í gær — breskur auðkýfingur, að ég held, sem hefur áhuga á því að leggja hingað sæstreng og hefur unnið það nokkuð vel, ef marka má, fjármögnun og annað slíkt. Hann sér fram á mikil atvinnutækifæri í Bretlandi vegna verkefnisins. Síðan kemur í ljós að hann er í góðum tengslum hér á Íslandi. Hann er með svokallaðan almannatengil hér sem sýnir að það er heilmikil alvara á bak við þetta mál.

Það vekur að sjálfsögðu upp spurningar þegar svona öflugir aðilar eru í sambandi við íslensk stjórnvöld, með óformlegum hætti, greinilega. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að a.m.k. hafi átt sér stað einhver samtöl.

Í svona tilfellum er mikilvægt að menn upplýsi um það ef svo er að það sé mikill áhugi vegna þess að það skiptir máli í þessari umræðu. Ef þessi tilskipun verður send í sameiginlegu EES-nefndina, hafnað hér, mun það greinilega valda titringi meðal þessara aðila. Þeir sjá kannski fram á að hugsanlega gæti það gerst að Ísland fengi varanlega undanþágu. Þá væru þeirra áform öll í uppnámi.

Þá spyr maður: Er það hugsanlegt að verið sé að beita þarna þrýstingi (Forseti hringir.) sem við höfum ekki frétt af sem er þess eðlis að reyna að keyra þetta mál í gegn með sem minnstri umræðu?