149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Það er mjög athyglisvert þegar svona atburðir verða, þegar svona þróun kemur í ljós. Nú er það svo, eins og hv. þingmaður veit, að hæstv. forsætisráðherra er nýsnúin til baka úr heimsókn til Bretlands þar sem hún hitti m.a. nýfallinn forsætisráðherra Englands. Það hefði kannski verið fengur að því fyrir okkur að vita hvort í þessari ferð — nú hef ég ekki séð dagskrá ráðherrans — hafi hún hitt t.d. fulltrúa þessa fyrirtækis sem segist vera í góðu sambandi við ráðherra ríkisstjórnarinnar, þvert á flokka. Það hefði verið mjög fróðlegt.

Ef svo hefði verið hefði verið mjög gott að vita um innihald viðræðnanna. Svo hefði verið mjög gott að vita hvort svo hefði alls ekki verið. Ég ætla ekkert að gera því skóna sérstaklega en engu að síður er það mjög athyglisvert þegar svona upplýsingar koma fram.

Það vill nú þannig til að bæði þessar upplýsingar og fleiri upplýsingar sem fram hafa komið, einmitt á meðan við höfum verið að dýpka þessa umræðu smátt og smátt, hafa ekki verið til reiðu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þær hafa komið upp hér og þar á fréttaveitum og líka hérna innan lands. Það er ekki hægt að segja það með góðum vilja að stjórnvöld á Íslandi og ríkisstjórnarflokkarnir haldi almenningi vel upplýstum um málið sem hér er til umræðu. Það er ekki hægt að segja það með góðum vilja og góðri samvisku að svo sé.

Ég held því að við verðum að halda áfram enn um sinn að ræða málið og dýpka það enn og (Forseti hringir.) vita hvort við komumst að einhverri niðurstöðu.