149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegi og velkomni forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann gerði að umtalsefni hversu erfiðlega hefur gengið að fá menn til að ræða þetta við okkur. Hann tengdi það saman að á sama tíma hefur mikill meiri hluti almennings af þessu áhyggjur og er mótfallinn innleiðingu þriðja orkupakkans.

Þetta er enn eitt atriðið sem minnir svolítið á mál sem við sum þurftum töluvert að ræða fyrir allmörgum árum, Icesave-deiluna. En það sem mér þykir áhugavert við þann samanburð er að þar voru menn þó yfirleitt ekki látnir ræða málið að næturlagi. Stundum stóðu þingfundir fram eftir. Ég held að sá lengsti sem hafi nú slegið flest met hafi staðið fram yfir klukkan fimm um nóttina en almennt gafst þingmönnum kostur á að ræða þetta að degi til. Ég held að umræðan hafi staðið með hléum í þrjár vikur.

Hvers vegna telur hv. þingmaður að forseta virðist í mun að láta sem minnst fara fyrir umræðunni? Ég get alla vega ekki dregið aðra ályktun af þeirri nýlundu að láta fundinn fara fram til sex, sjö, átta, níu eða jafnvel tíu á morgnana. Er mönnum enn meira í mun að troða þessu máli í gegn en Icesave-málinu? Og hvernig má það vera að ríkisstjórnin leggi slíkt ofurkapp á, og forseti Alþingis sérstaklega að því er virðist, að þvinga þetta mál í gegn að menn taki upp nýja siði (Forseti hringir.) og slái öll met í næturfundarhöldum?