149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Leitumst við að svara þeirri spurningu. Ein af fáum vísbendingum sem við höfum fengið frá stjórnarliðinu um hvað þau eru yfir höfuð að hugsa í þessu máli, í seinni tíð, kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra þegar hann leit við skamma stund fyrir nokkrum dögum, svaraði að vísu ekki mörgum spurningum, en það hvernig hæstv. ráðherra talaði og boðskapur hans sagði samt sína sögu. Hann endurflutti samsæriskenningu sína um að andstaðan við þriðja orkupakkann væri runnin undan rifjum einhverra Norðmanna, einkum norska Miðflokksins og samtaka í Noregi sem berjast gegn aðild landsins að Evrópusambandinu. En eftir að hæstv. ráðherrann hafði haldið þessu fram þá fyrst bárust skilaboð frá þessum samtökum, sem bentu á að þau væru meðvituð um að norska ríkisstjórnin væri að þrýsta á þá íslensku um að innleiða þennan orkupakka. Loks var þá norska tengingin fundin.

Eins og margir þekkja eru a.m.k. tveir af þremur flokkum norsku ríkisstjórnarinnar mjög Evrópusambandssinnaðir og kann að vera að þessir Evrópusinnuðu flokkar í Noregi vilji og leggi ofuráherslu á að Íslendingar keyri þetta mál í gegn áður en norski stjórnlagadómstóllinn skilar sinni niðurstöðu. Verði Íslendingar búnir að innleiða er of seint fyrir Norðmenn að gera leiðréttingu samkvæmt dómi stjórnlagadómstólsins.