149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að ljúka ræðu minni um stöðu mála í norskum stjórnmálum og þau áhrif sem hún hefur á stöðuna á Íslandi. Einnig get ég upplýst hæstv. forseta um að ræða mín um samspil ólíkra tegunda reglugerða sem týndist í morgun er fundin, þótt fyrirvararnir séu ekki fundnir. Ég get klárað þá ræðu fljótlega.

Svo var ég upplýstur um að þetta muni vera 40. ræða mín í þessari umræðu. Reyndar hafa sumir hæstv. forsetar, þar með talin hæstv. forseti Guðjón Brjánsson og hæstv. forseti Bryndís Haraldsdóttir, haft það fyrir sið að nefna það sérstaklega þegar svona tímamót verða hjá mönnum í ræðuflutningi. Ég tek því ekkert illa þó að sá hæstv. forseti sem nú situr hafi ekki gert það. En í ljósi þeirra tímamóta ætla ég að bíða aðeins með ræðurnar sem ég nefndi áðan og flytja tímamótaræðu. Það eru nefnilega mikil tímamót í stjórnmálum, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim. Þau felast í viðbrögðum almennings við þeirri óheillaþróun sem hefur verið að ágerast um allmargra ára skeið og felst í því sem ég kalla kerfisvæðingu. Það er stöðugt verið að færa vald frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum — og þeir bera ábyrgð á því sjálfir — til embættismanna og stofnana. Stærsta dæmið um þetta er auðvitað Evrópusambandið en þetta tekur á sig ýmsar myndir í okkar samfélagi líka og m.a. í tengslum við EES-samninginn.

En nú er að renna upp fyrir kjósendum, mörgum, sífellt fleirum, að svona eigi lýðræðið ekki að virka. Til þess að lýðræðið virki þurfi kjósendur að eiga a.m.k. einhverja von um að stjórnmálamenn ætli sér, hafi stöðu og getu til, að framkvæma í samræmi við þau loforð sem gefin eru í kosningum. En þegar stjórnmálamenn eru búnir að afsala sér valdinu og þora jafnvel ekki að fara með það vald sem þeim er ætlað samkvæmt lýðræðislegu fyrirkomulagi er um leið búið að taka valdið af kjósendum.

Nú sjáum við viðbrögð við þessari óheillaþróun, síðast í kosningum til Evrópuþingsins, ekki hvað síst í Bretlandi þar sem nýr stjórnmálaflokkur fékk um þriðjungsfylgi á meðan annar nýr stjórnmálaflokkur, sem virtist stofnaður honum til höfuðs en var svona kerfisflokkur, ætlaði að vera nr. eitt í því, fékk, held ég, 2,8% og spyrst kannski ekki meira til hans. En flokkurinn sem lagði fyrst og fremst og nánast eingöngu áherslu á að lýðræðið yrði virt og staðið við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu vann mikinn sigur.

Þetta er bara eitt af fjölmörgum dæmum um að almenningur gerir sér grein fyrir því að ef stjórnmálamenn afsala sér valdinu eru þeir að afsala sér valdi sem þeir eiga ekki. Þeir eru að gefa frá sér vald sem er í raun eign kjósendanna. Við þær aðstæður geta orðið afdrifarík mistök, þó að það geti tekið talsverðan tíma fyrir mistökin að raungerast að fullu. Menn hafa t.d. nefnt það um þennan orkupakka að þetta gerist ekki allt saman strax, það geti jafnvel verið allt að tíu ár þangað til menn sjá raunverulegar afleiðingar þessa. En tíu ár eru ekki langur tími í sögu þjóðar og raunar alveg örstuttur.

Ég heyrði í ræðu hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar áðan að Ingólfur Arnarson hefði varla komið til Íslands til þess eins að ganga í Evrópusambandið nokkrum árum seinna. Mér fannst kannski helst til lítið í lagt að kalla meira en 1100 ár nokkur ár en svo rifjaðist upp fyrir mér línurnar úr þjóðsöngnum:

Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár

og þúsund ár dagur, ei meir!

Við þurfum því þegar við ræðum þetta mál að hafa í huga áhrifin af því til allrar framtíðar. Þótt miðað væri við tíu ár væri það ekkert í samhengi hlutanna.