149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að óska hv. þingmanni til hamingju með 40. ræðuna um þetta mikilvæga mál. Nú hef ég hlustað eftir áhyggjum Miðflokksmanna af andakt í dag og verð reyndar að segja að þó að einum sex klukkustundum hafi verið bætt við þær 90 sem þegar eru komnar er ég litlu nær um hverjar áhyggjur flokksins í raun eru.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að þeir fjórir helstu stjórnskipulagssérfræðingar sem fengnir voru til að veita umsögn um þetta mál á undirbúningsstigi þess og fóru yfir það með þar að lútandi fagnefndum í þinginu, voru allir sammála því að málið eins og það kæmi fyrir þingið stæðist í alla staði stjórnarskrá Íslands. Það væri engin hætta á því að í þessu fælist nokkurt framsal á forræði eða ráðstöfun auðlinda okkar og það væri alveg ljóst að regluverk um flutningsmannvirki yfir landamæri gilti ekki hér á landi þar sem slíkt flutningsvirki væri ekki til staðar og yrði ekki reist nema með samþykki Alþingis í ljósi þess lagalega fyrirvara sem Miðflokkurinn hefur leitað mjög að í umræðu um þetta mál en er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Það skilyrði, lagafrumvarp, bíður reyndar og er næst á dagskrá varðandi samþykki, um að sæstrengur verði ekki lagður hingað til lands nema með samþykki Alþingis.

Ef hv. þingmaður gæti gefið mér leifturræðu í stuttu máli um í hverju áhyggjur þingflokksins felast. Hvers vegna telur Miðflokkurinn alla þessa sérfræðinga hafa rangt fyrir sér um þetta mál og að afgangur þingheims, (Forseti hringir.) 54 þingmenn, fari villur vegar með því að telja málið fullrætt og tilbúið til atkvæðagreiðslu?