149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svolítið hissa á tali hv. þingmanns Viðreisnar um þessa fyrirvara. Ég hélt í einlægni að þingmenn Viðreisnar, eins og flokksbróðir þeirra Þorsteinn Pálsson, litu svo á að fyrirvararnir væru bara blekking og fyndist það bara fínt, áttuðu sig á því að þetta væri verkfæri til að reyna að sannfæra — eða blekkja — þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

En nú er hv. þingmaður farinn að tala eins og hann taki þessa fyrirvara alvarlega, hugsanlega til að halda hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í skefjum. Ég skal ekki segja.

En af því að spurt er enn og aftur út í þetta bréf, áréttingarbréfið sem utanríkisráðherra kallaði eftir, má benda á að sama dag og það bréf birtist, birtist viðtal við fyrrnefndan Friðrik Árna Friðriksson Hirst á mbl.is þar sem hann rekur það mjög skýrt hvaða lagaleg óvissa felist í þessu.

Svo ítreka ég það sem ég sagði áðan að þessir lögfræðingar bentu á að fyrirvarinn þyrfti að vera þess eðlis að innleiðing tæki ekki gildi. Þeir viðurkenndu að þeir hefðu ekki séð þessa fyrirvara. Og svo kemur hv. þm. Þorsteinn Víglundsson hér og nefnir, held ég, enn einn stað í viðbót þar sem fyrirvarann kunni að vera að finna eða sé í mótun. Við verðum að tilkynna hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni um þessa nýju vísbendingu í málinu.

En hvernig stendur þá á því að fyrirvarinn er ekki kynntur? Ætla menn að klára málið sem byggist, að því er virðist, allt á þessum fyrirvara, áður en fyrirvarinn er kynntur? Áður en hann verður til? Áður en kallað er eftir lögfræðilegu mati á fyrirvaranum og hvort hann dugi til þess að uppfylla skilyrðin sem þarf til?

Þetta er mjög undarleg röð hlutanna en því miður lýsandi fyrir hvernig haldið hefur verið á þessu máli.

Svo vona ég að hv. þingmaður haldi áfram að koma í andsvör við okkur og lyfta okkur aðeins (Forseti hringir.) upp í umræðunni og skýra orkumálin.

(Gripið fram í: Er þetta ekki nógu skemmtilegt?)