149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vildi koma aðeins inn á eitt sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu, þ.e. hvernig litið er á Ísland í EES-samningnum. Þá vil ég vísa til þess sem álitsgjafinn Carl Baudenbacher segir í sinni álitsgerð sem var gerð fyrir utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytið og hefur verið lykilgagn í þeirra málflutningi. Hann segir, með leyfi forseta:

„Til lengri tíma litið gæti höfnun Íslands á þriðja orkupakkanum teflt í tvísýnu aðild landsins að EES-samningnum.“

Þarna er hann í raun og veru með pólitíska álitsgjöf, ekki lagalega, sem orkar svolítið tvímælis að mínu mati.

Síðan bætir hann við að sú skoðun hafi alltaf verið til staðar í Noregi að túlka ætti EES-samninginn á þann veg að um tvíhliða samning væri að ræða milli Norðmanna og Evrópusambandsins þar sem Íslendingar og Liechtensteinar væru í eins konar aukahlutverki.

Þetta þykir mér ansi merkileg yfirlýsing, að við sem erum fullvalda þjóð og eigum aðild að þessum tvíhliða samningi, höfum öll sömu réttindi og aðrir sem eiga aðild að þessum samningi, lagaleg réttindi, skulum vera í einhvers konar aukahlutverki.

Hvað segir þetta að áliti hv. þingmanns um álitsgjafann sjálfan?