149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég setti fram kenningu um þetta atriði eina nóttina þegar enginn hafði tækifæri til að heyra hana, því miður. Það er gott að fá tækifæri til að árétta hana. Ég er nefnilega með kenningu um akkúrat þetta atriði, þekkjandi Carl Baudenbacher og vitandi það að hann þekkir Íslendinga ágætlega og hvernig þeir hugsa.

Ég held að þetta hafi verið sett inn í þessa álitsgerð til þess að í raun ögra Íslendingum til að gera það sem þeir þurfa að gera. Carl Baudenbacher gerir sér alveg grein fyrir því hvernig Íslendingar bregðast við svona skýringum. Hann gerir sér grein fyrir því að það er að sjálfsögðu ekki hægt fyrir landið, eða nokkurt annað sjálfstætt land, að nálgast alþjóðasamning á þann hátt að landið sé einhvers konar fylgifiskur með aukaaðild og lúti öðru landi eða þurfi að sýna því hollustu, eins og það var orðað. Það höfum við ekki gert fram að þessu í þessu samstarfi, eða ég vona a.m.k. ekki.

Þessi skilaboð frá Carl Baudenbacher eru auðvitað fyrst og fremst til þess fallin að árétta það að við verðum núna að sýna að við séum í þessu samstarfi á jafnréttisgrundvelli. Það kann vel að vera að þetta viðhorf sé til staðar einhvers staðar í Noregi, í norska stjórnkerfinu til að mynda, jafnvel hjá einhverjum norskum stjórnmálamönnum. En þess þá heldur, ef það er mat Baudenbachers sem hann upplýsir okkur um í þessu áliti, verðum við að nota tækifærið sem nú gefst til að árétta þetta. Íslendingar eru í EES-samstarfinu á jafnréttisgrundvelli.