149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki vanþörf á því, í ljósi þessarar yfirlýsingar, að við áréttum að við séum í samstarfinu á jafnréttisgrundvelli, eins og hv. þingmaður nefndi, og séum fullgildir aðilar að þessum samningi, gegnum ekki einhvers konar aukahlutverki í samstarfinu þar sem Noregur ráði ríkjum. Vissulega er Noregur hryggjarstykkið í þessum samningi. En engu að síður höfum við alveg sömu réttindi og Noregur hvað þetta varðar.

Ég verð að segja að þessi pólitíska yfirlýsing, þetta álit sem þessi ágæti maður lætur frá sér, kemur mér verulega á óvart. Í alþjóðasamskiptum eiga menn að tala varlega í svona málum. Þetta er óvenjulegt. Ég fullyrði það. Það er óvenjulegt að það sé sett fram svona fullyrðing af hálfu manns sem er jú ráðinn af íslenskum stjórnvöldum til að gefa sitt álit. Um leið finnst mér hann vera að gera lítið úr íslenskum stjórnvöldum og þætti Íslands í þessu samhengi.

Það kemur mér á óvart að utanríkisráðherra skuli ekki hafa brugðist með einhverjum hætti við þessari yfirlýsingu og kallað eftir nánari skýringum af hálfu Carls Baudenbachers hvað þetta varðar. Það er ekki traustvekjandi að með áliti af þessu tagi skuli álitsgjafinn um leið, að mínu persónulega mati, gera lítið úr okkur Íslendingum.