149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Í byrjun nóvember síðastliðinn lagði ég fyrirspurn fyrir hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um upprunaábyrgð á raforku. Í fyrirspurninni voru nokkrar spurningar og m.a. spurði ég hæstv. ráðherra hvort sala á upprunaábyrgðum á raforku kynni að hafa áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, og ef svo væri, þá hvernig.

Hæstv. ráðherra svaraði efnislega á þann veg að í skýrslu um upprunaábyrgðir sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í mars 2016 hafi komið fram að sala upprunaábyrgða frá Íslandi hafi engin tengsl við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Upprunaábyrgðir samkvæmt 28. tilskipun Evrópusambandsins, nr. 28/2009, hefðu þann eina tilgang að sýna fram á að tiltekið magn endurnýjanlegrar orku hafi verið framleitt og hefði upplýsingagjöfin eingöngu þýðingu í tengslum við viðskipti við með viðkomandi orku.

Þannig að álit ráðherrans var að það hefði enga þýðingu varðandi alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eða skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Ég beindi einnig spurningu til hæstv. ráðherra um hvort sala á þessum ábyrgðum gæti haft áhrif á möguleika innlendra kaupenda raforku til að sýna fram á hreinan uppruna raforkunotkunar sinnar. Samkvæmt svari ráðherra, sem barst mér núna fyrir nokkrum vikum síðan, var talið að sala á upprunaábyrgðum ætti ekki almennt að hafa áhrif á möguleika innlendra kaupenda raforku til að sýna fram á hreinan uppruna raforkunotkunar sinnar. Svarið var á þann veg að það myndi ekki áhrif hafa áhrif á möguleikana til að sýna fram á hreinan uppruna — sem vekur svolitla furðu.

Í því samhengi — og ég ætla að fara betur í þessa fyrirspurn í næstu ræðu, ég sé að tíminn líður hratt, herra forseti. Ef íslensk orkufyrirtæki selja frá sér allar sínar upprunaábyrgðir, þ.e. þær seljast upp og íslenskt fyrirtæki, hugsanlega í samkeppni við erlent fyrirtæki, vill eða þarf að sýna fram á uppruna raforku sinnar vegna viðskiptavina sinna eða krafna frá viðskiptavinum sínum í útlöndum, gefur það augaleið að ábyrgðin er ekki til staðar. Ef innlendi raforkusalinn er búinn að selja allar ábyrgðirnar getur hann ekki haldið áfram að selja þær og íslenski framleiðandinn situr uppi með það að hann reki verksmiðju sína með sóðalegri eða óhreinni raforku. Því að hreint vottorð er ekki til staðar, það er uppselt.

Þetta getur verið mjög bagaleg staða; þó að hæstv. ráðherra fullyrði í svari sínu að þetta muni ekki hafa þessi áhrif get ég ekki betur séð en að ef eftirspurn eftir þessum ábyrgðum eykst og íslensku raforkufyrirtækin selja þær allar frá sér, sem þau hafa reyndar ekki gert að öllu leyti en að miklu leyti — ég fer betur í það á eftir hvers lags upphæðir var þar um að ræða — þá hlýtur það að valda því að íslensk fyrirtæki sitja uppi með að vera höfð að sök fyrir að framleiða sína vöru með óhreinni raforku. Það er ekkert flóknara en það.

Á síðasta ári seldu — það er áætlað, það kemur fram í svari ráðherra — íslensk raforkufyrirtæki upprunaábyrgðir, þessi vottorð, ekki raforku heldur vottorð um uppruna raforku, fyrir 800–850 millj. kr. Það er áætlað. Sú tala liggur ekki fyrir. Þetta skiptist á fjögur fyrirtæki, Landsvirkjun og HS orka bera þar stærstan hlut. (Forseti hringir.)

Ég mun halda áfram með þetta í næstu ræðu minni.