149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:11]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég veit ekki hvort til sé eitthvert stutt svar við þessu. Lög nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku, eru sett til innleiðingar á regluverki Evrópusambandsins og tilskipun nr. 77/2001, sem fjallar um þessar ábyrgðir og gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvort hægt sé að draga sig út úr þessu? Það held ég að sé ekki svo auðvelt héðan af. Það er búið að innleiða þetta á Íslandi, væntanlega, þótt ég hafi ekki kannað hvernig og hvenær það var gert. Þetta eru lög í landinu og öllu Evrópusambandinu þannig að við göngum ekkert út úr þessu. Enda er, herra forseti, enn sem komið er, ekki um neitt að ræða nema tekjur. Við erum að selja vottorð í formi pappírs eða rafrænna vottorða fyrir fjármuni til fyrirtækja í Evrópu, þrátt fyrir að við séum ekki að selja neina raforku. Við erum ekki að selja nein efnisleg gæði. Við erum bara að selja vottorðið. Með þessum vottorðum fer náttúrlega ímyndin svolítið halloka vegna þess að bókhaldið okkar, raforkubókhaldið, lítur verr út.

Það sem ég er að leita eftir er hvernig það muni líta út þegar við erum búin að selja öll þessi vottorð og íslensk fyrirtæki hafa ekki neina möguleika á að sýna uppruna orkunnar sem þau nota, nema þá að greiða fyrir það í samkeppni við evrópsk fyrirtæki. Veldur það ekki hækkun á raforkuverði?