149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa áhugaverðu ræðu og þetta áhugaverða málefni sem er nauðsynlegt að skýra betur út fyrir almenningi. Málið er í raun flókið í einfaldleika sínum, ef það má orða það þannig. Að það skuli vera hægt að selja pappíra upp á það að maður noti hreina orku sem maður notar í raun ekki. Þetta kemur svolítið spánskt fyrir sjónir.

Það sem er athyglisverðast við málflutning hv. þingmanns er hvort þetta geti haft áhrif á raforkuverð til framtíðar. Það er mjög áhugaverður punktur sem hefur ekki verið ræddur hér en fullt tilefni er til. Auk þess kom hv. þingmaður réttilega inn á að þetta getur haft, og hefur, áhrif á ímynd landsins, alveg eins og það hefur áhrif á ímynd landsins að við seldum núna í síðustu fjárlögum, ríkisstjórnin lagði til og kom í framkvæmd að selja losunarheimildir, held ég upp á u.þ.b. 4 milljarða kr.

Ég held að það sé alveg ljóst að þetta skaði ímynd okkar. Það sem mig langaði helst að fá frá hv. þingmanni í þessu sambandi er hvaða leiðir hann sjái til þess að við getum rétt okkar hlut hvað þetta varðar ímyndarlega séð. Fyrir mér, sem hef kannski ekki sett mig nægilega mikið inn í þennan þátt málsins, kemur það illa út að (Forseti hringir.) við, með þessa hreinu orku, skulum selja þessi svokölluðu vottorð eða aflátsbréf.