149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er mjög áhugavert málefni og kemur örugglega til með að hafa víðtækari áhrif, eins og hv. þingmaður segir, þegar og ef orkupakkinn verður innleiddur. Evrópusambandinu er það mjög mikilvægt að eiga aðgang að hreinni orku.

Annað í þessu er að það vantar tilfinnanlega, finnst mér, í þessa umræðu og tengist því sem hv. þingmaður nefndi, að eiga orðastað við umhverfisráðherra um þetta mál. Það er jú ráðuneytið sem hefur þessi málefni á sinni könnu og nauðsynlegt er að skýra út þætti málsins hvað varðar áhrifin af því ef hér verður tengdur sæstrengur við landið, sem ég held að allir séu sammála um að verði að veruleika. Það er bara spurning um árafjölda. Þá spyr ég um bæði umhverfisleg áhrif aukinna virkjunarframkvæmda sem koma örugglega til með að verða að veruleika og eru í deiglunni, eins og t.d. vindmyllugarðarnir, og auk þess áhrif á alþjóðavettvangi, þ.e. á ímynd landsins, gagnvart skuldbindingum okkar eins og Parísarsamkomulaginu, skuldbindingum í umhverfismálum. Allt skiptir þetta máli og tengist. Þess vegna hefði maður talið, herra forseti, að það væri mjög nauðsynlegt að umhverfisráðherra kæmi inn í þessa umræðu á þessu stigi.