149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög athyglisverð skýrsla vegna þess að hún sýnir okkur svart á hvítu hvaða vandamál blasa við Evrópusambandinu í þessum málaflokki, þ.e. umhverfismálunum, orkumálunum. Þeir reyna að sjálfsögðu að finna lausnir sem geta hentað þeim. Í því efni er alveg ljóst að orkustefnan verður eiginlega grunnþátturinn í EES-samningnum í framtíðinni. Þess vegna verður EES-samningurinn með degi hverjum mikilvægari í augum Evrópusambandsins. Ég held að það sé alveg ljóst.

Það að halda því fram eins og hér hefur verið gert að samningurinn sé í hættu, en í pólitískri álitsgerð Carls Baudenbachers sem utanríkisráðuneytið réð til starfa er lögð áhersla á þessa hættu, held ég að sé pólitískt rangt mat á stöðunni. Þessi skýrsla er mjög upplýsandi um í hvað stefnir innan Evrópusambandsins. Þeir þurfa að bregðast hratt við losun gróðurhúsalofttegunda og í raun er það kjarninn í nýrri orkumálastefnu Evrópusambandsins. Þeir glíma við mikla notkun á jarðefnaeldsneyti. Þeir þurfa að draga úr losun. Og (Forseti hringir.) orkupakkinn er liður í því að við komum að því að aðstoða þá í þeim efnum.