149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eftir því sem við göngum lengra í þessum efnum, þ.e. samþykkjum orkupakka þrjú og síðan kemur orkupakki fjögur, því erfiðara verður að snúa til baka. Ég held að það sé alveg ljóst. Auðvitað áttum við aldrei að undirgangast þessa orkupakka í upphafi, orkupakka eitt og tvö. Þeir hafa ekki skilað okkur neinu nema aukinni yfirbyggingu. Orkufyrirtækjunum var skipt upp. Það hafði í för með sér heilmikinn kostnað fyrir fyrirtækin sem síðan fór út í verðlagið. Það varð óheimilt að niðurgreiða raforku. Allir sérsamningar voru bannaðir. Það komu þarna ýmsar tilskipanir sem áttu bara engan veginn við okkar markaðssvæði, okkar raforkukerfi eins og það er uppbyggt og við höfum byggt upp með miklum sóma. Það eru fyrstu mistökin. Þau liggja náttúrlega í því að fá ekki varanlega undanþágu strax í upphafi.

En núna er þetta mál kannski orðið frábrugðið. Nú erum við í raun og veru að leggja grunninn að enn þá stærri markaðsvæðingu, þ.e. nú er þetta ekki bara á Íslandi sem menn voru að huga að samkeppni í þessum geira, með uppskiptingu fyrirtækjanna o.s.frv. Nei, tilskipun þrjú er þetta stóra skref sem er verið að stíga til að fara inn á sameiginlega markaðinn sem er Evrópa og það veltur á sæstreng sem ég held að við höfum sýnt fram á að mun koma og verður ekki hægt að koma í veg fyrir.