149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir með honum að stefnubreyting Vinstri grænna er með ólíkindum. Þetta var eini flokkurinn sem greiddi atkvæði gegn orkupökkum eitt og tvö á sínum tíma og hélt uppi mjög kröftugum málflutningi gegn innleiðingu þeirra og að markaðsvæða raforkukerfið. Auðvitað er það réttmæt spurning hjá hv. þingmanni og áhyggjuefni: Getum við treyst svona stjórnmálaflokki til að leiða okkur áfram í þessum málum sem kúvendir svo ótrúlega í afstöðu til þessa máls? Það hafa engar haldbærar skýringar fengist á því. Þetta mál fól í sér og felur í sér markaðsvæðingu á raforku.

Hv. þingmaður og núverandi þingforseti, Steingrímur J. Sigfússon var með sérálit í utanríkismálanefnd á sínum tíma þar sem hann var mjög svo á móti því að innleiða orkupakka eitt og tvö og færði fyrir því mjög góð rök, en varð hins vegar að lúta í lægra haldi vegna þess að málið fór í gegn. Núna er þessi sami flokkur kominn í lykilstöðu með að segja: Hingað og ekki lengra. Nú segjum við stopp. Nú förum við með þetta mál í sameiginlegu EES-nefndina. Við förum ekki í frekari markaðsvæðingu. Við förum ekki inn á þetta stóra svæði sem er Evrópa með 550 milljóna manna markað.

Ég verð að segja það, herra forseti, að ég á erfitt með að treysta stjórnmálaflokki sem breytir svo ótrúlega um skoðun vegna þess að reynslan af orkupökkum eitt og tvö er ótvírætt neikvæð fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er margbúið að sýna fram á það hér og þeir sem halda öðru fram fara einfaldlega ekki með rétt mál (Forseti hringir.) og horfa ekki í staðreyndir málsins.