149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Áhyggjurnar sem hann hefur í þessum efnum eru réttmætar. Ég vil kannski fyrst segja það, af því að hv. þingmaður kom inn á málflutning Vinstri grænna og sinnaskipti þeirra í þessu máli, að það vekur einnig athygli að stór hluti Samfylkingarinnar sat hjá við afgreiðslu orkupakka eitt og tvö á sínum tíma. Það vekur að sjálfsögðu athygli. Núna held ég að Samfylkingin hafi nánast verið búin að samþykkja þetta mál án þess að vera búin að líta á þingskjölin, þau settu sig ekki einu sinni inn í málið. Auk þess vekur það athygli að það virðist ekkert hlustað á fyrrum formann þeirra, hinn skelegga stjórnmálamann Jón Baldvin Hannibalsson, en hann hefur löngum verið talinn faðir EES-samningsins og þekkir allt ferlið eftir að hafa komið að samningsgerðinni fyrir Íslands hönd á sínum tíma. Samfylkingarfólk virðist ekki hlusta á sinn fyrrum formann sem varar eindregið við því að samþykkja þriðja orkupakkann. Það vekur að sjálfsögðu mikla athygli.

Hvað varðar markaðsvæðinguna og valdframsalið er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að Evrópusambandið leggur áherslu á miðstýringu, að þessu verði öllu saman stýrt innan Evrópusambandsins, það verði miðstýring á samkeppnisgrundvelli, sem þýðir að þeir eru á móti öllu sem heitir öflug fyrirtæki í þjóðareigu eins og t.d. Landsvirkjun.

Ég held að það sé nokkuð ljóst að við komum til með að horfa fram á frekara valdframsal og auk þess hækkun raforkuverðs (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður nefndi. Það er eftirsókn eftir hreinni orku í Evrópu og hún kemur til með að (Forseti hringir.) verða verðmætari og þar af leiðandi (Forseti hringir.) hækkar rafmagnsverð til heimila á Íslandi.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)