149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir í gær, á mánudegi, vakti formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, athygli á grein sem birst hafði í blaðinu The Times í Bretlandi deginum áður, ef ég man rétt, og verið endurbirt m.a. í Morgunblaðinu og Viljanum þar sem fjallað var um að breskur fjárfestir væri að ýta á bresk stjórnvöld að opna leið til að leggja sæstreng til Íslands. Verkefnið væri fullfjármagnað og í rauninni væri ekki eftir neinu að bíða.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson opnaði þetta mál undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var til andsvara. Þar kom Katrín inn á að hún vonaðist til að sæstrengur yrði aldrei lagður til Íslands. Hún sagði jafnframt að allir lögfræðingar væru sammála um að þriðji orkupakkinn fæli ekki í sér lagningu sæstrengs. Það er það sem mig langar að koma inn á í tengslum við nýframkomið álit sem ég ætla að vekja athygli á.

Með leyfi forseta, sagði hæstv. forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í gær:

„Allir lögfræðingar eru sammála um að engin skylda verði leidd af orkupakkanum um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES-ríkis. Það er ekki svo að þau ákvæði sem snúast um þetta mál taki hér gildi nema slíkur sæstrengur verði lagður …“

— Þá er hún að vísa í þriðja orkupakkann.

Hæstv. forsætisráðherra sagði jafnframt, með leyfi forseta:

„Það er staðreynd málsins. Hún hefur ekki verið hrakin. Hann felur ekki í sér kvöð um að hingað skuli lagður sæstrengur. Það er ákvörðun Alþingis ef til þess kemur nokkru sinni, sem ég vona ekki“, sagði Katrín.

Í gærkvöldi birtist pistill á Facebook-síðu Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara, sem er í rauninni viðbrögð við þessari afstöðu forsætisráðherra. Þar segir, með leyfi forseta — það er sem sagt Arnar Þór Jónsson héraðsdómari sem hér skrifar:

„Ég treysti mér ekki til að tala fyrir munn allra lögfræðinga eins og forsætisráðherrann gerir hér, en tel rétt og skylt að undirstrika eitt atriði: Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það). Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, samanber fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum. Þetta er nokkuð sem menn hefðu þurft að ræða heiðarlega (og ítarlegar) á fyrri stigum. Í framhaldinu hefði þá verið hægt að ræða efnislega um hagkvæmni/kostnað, kosti/galla þess að senda íslenska raforku til annarra landa. Í þeim þætti umræðunnar hefðu íslenskir stjórnmálamenn a.m.k. fastara land undir fótum en forsætisráðherrann hefur í þessu viðtali.“

Ég held að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hafi nú sennilega ekki verið skotin hraðar niður en með þessum viðbrögðum héraðsdómarans, því að þetta var alveg fyrirvaralaus yfirlýsing forsætisráðherrans þegar hún segir, með leyfi forseta, og ég ætla að endurtaka það: „Allir lögfræðingar eru sammála um það að engin skylda verði leidd af orkupakkanum …“ — Allir lögfræðingar.

Þessi afstaða hæstv. forsætisráðherra skilur ekki eftir neitt svigrúm til túlkunar eða misskilnings.

Mig langar til að ítreka orð Arnars Þórs Jónsson, héraðsdómara, í lok ræðu minnar þar sem héraðsdómarinn segir, með leyfi forseta:

„Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng.“ — Engu skipta.