149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Þetta er afar athyglisvert sem hv. þingmaður bendir hér á, að forsætisráðherra hafi borist svar á fésbókinni við þessari yfirlýsingu sinni í þingsal.

Við þekkjum það að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, er mjög dugleg og eldklár kona og við berum mikla virðingu fyrir henni. Maður veltir því fyrir sér hvort forsætisráðherra hafi ekki fengið réttar upplýsingar. Getur verið að kynningin hjá ríkisstjórninni eða þeim sem lögðu málið á borð og eru að reyna að keyra það í gegn hafi kannski ekki verið rétt, eða hvort þeir hafi ekki áttað sig sjálfir á því að þessi fyrirvari er, eins og menn hafa sagt, m.a. lögmenn, fyrst og fremst til heimabrúks? Hann kemur ekki í veg fyrir að einkaaðilar, líkt og þetta bresk-íslenskra fyrirtæki, eða hvað það er, Atlantic SuperConnection, leggi hér upp á sinn kostnað sæstreng, reisi hér mögulega orkuver, t.d. vindorkuver, flytji síðan orkuna áfram til Skotlands og þaðan mögulega áfram til Evrópu, svo dæmi séu nefnd, eða inn á þennan evrópska markað. Það kemur á óvart að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki verið kynnt það eða hún upplýst um það. Þó svo að forsætisráðherra leiði þessa ríkisstjórn og það fyrir hönd Vinstri grænna, sé á fullu í því að auka markaðsvæðingu auðlindanna, að gera þær að meiri verslunarvöru en áður hefur verið, þá veit ég að ráðherrann myndi ekki fara með fleipur um (Forseti hringir.) slíkt mál vissi hún eitthvað betur. (Forseti hringir.)

Er ekki eitthvað eftir af tímanum?

(Forseti (GBr): Jah …) Hann er alla vega búinn núna.

(Forseti (GBr): Það mun vera eitthvert ósamræmi í klukkunni. Þetta mun verða endurskoðuð og hv. þingmaður verður ekki látinn gjalda þess.)