149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni andsvarið. Jú, ég held að það sé nauðsynlegt að menn gefi sér tíma til að setjast niður og fara yfir þessi sjónarmið ef vilji er til þess, ef tími vinnst til að skoða þessi mál á meðan við Miðflokksmenn ræðum málin hér í þingsal.

Samkvæmt fréttum þykir mörgum þingmönnum æði rúmt á tíma sínum þessa dagana vegna þeirrar umræðu sem á sér stað um þriðja orkupakkann og fæstir þingflokkar taka þátt í. Ég held því að atriði eins og þetta, þar sem fram kemur afstaða stjórnarflokkanna, sem er væntanlega grunduð á afstöðu þess ráðherra sem mælir fyrir málinu, sé byggt á misskilningi. Þá er auðvitað alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að stjórnarflokkarnir taki eitt tvö skref til baka, skoði málið heildstætt og taki til greina þau sjónarmið sem komið hafa fram sem eru á öndverðum meiði við það sem er notað sem rökstuðningur til innleiðingar orkupakkans eins og hann liggur fyrir núna.

Þeim atriðum fjölgar stöðugt sem annaðhvort engin svör liggja fyrir um, eða óljós, eða þá þar sem drjúgur hluti þingheims er þeirrar skoðunar að betur gæti verið á haldið um hagsmuni lands og þjóðar en er gert samkvæmt núverandi nálgun á innleiðinguna.