149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Mér þykir þú segja tíðindin, hv. þm. Bergþór Ólason. Ég ætla að leyfa þér að fjalla um þetta í næstu ræðu þinni, en þetta er mjög áhugavert. Þessar upplýsingar skipta auðvitað máli í leit að fyrirvaranum. Ég mun að sjálfsögðu grannskoða þessar upplýsingar og þá skoðun sem Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sá mæti maður, hefur á þessum fyrirvara. Hann er nú sammála því sem við höfum haldið hér fram.

Í fyrsta lagi: Hvers efnis er þessi fyrirvari? Og í öðru lagi: Mun hann halda? Er eitthvert hald í honum? Þegar við áttum okkur loksins á því nákvæmlega í hverju hann felst, mun hann halda? Skoðun þessa virta lögfræðings er sú að hann muni engu skipta. Hvaða skoðanir ríkisstjórnin hefur á þessu, hvort hún vill sæstreng eða ekki — það er búið að innleiða þetta og það verður einfaldlega höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Það er svo einfalt. Á það höfum við verið að benda hérna dögum saman og kallað eftir rökum fyrir því hvernig stjórnarliðar sjá þennan fyrirvara halda.

Ég ætla ekki að fjalla um þetta í ræðu minni en mér finnst þetta bara svo athyglisvert, svo nýtt inn í málið, þetta varpar nýju ljósi á það. Ég hlakka til að heyra hv. þingmann bæta við í það safn sem þarna er greinilega fyrir hendi. Ég ætla að fjalla um upprunaábyrgð á raforku, sem er óþrjótandi umræðuefni og mjög áhugavert og tengist innleiðingu þriðja orkupakkans allverulega. Sérstaklega hvað varðar væntingar eða ótta okkar við áhrif á verð raforku hér innan lands. Ekki bara út af þessum upprunaábyrgðum heldur einnig vegna þess að ef til þess kæmi að Ísland yrði tengt raforkumarkaði Evrópu með sæstreng. Eins og ég sagði áðan í ræðu er innleiðingin á þessari reglugerð löngu orðin. Þetta eru lög frá 2008.

Ég kalla þetta litla bróður orkutilskipunarinnar. Vegna þess að í þessu getum við séð sýnishorn af því hvað gæti hugsanlega orðið með tilkomu orkutilskipunarinnar sem við erum að ræða og við getum séð framtíðina varðandi raforkuverð til notenda hér innan lands. Þetta fjallar raunverulega bara um uppruna og vottorð á upprunaraforku og sölu á þeim.

Ég var ekki enn þá búinn að fara yfir verðið á raforkunni. Samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra, í svari við fyrirspurn frá mér, þá hefur verð á upprunaábyrgðunum undanfarin ár verið á bilinu 0,2 til 2 evrur. Þá er miðað við MWst. Íslensku orkufyrirtækin seldu 14,8 TWst. árið 2017. Áætlað verð á síðasta ári, 2018, er 800–850 milljónir. Fyrirtækin sem hafa verið að selja eru HS Orka, Orkusalan Orka náttúrunnar og Landsvirkjun, þó með mjög mismunandi hætti og í mismunandi magni.

Ef ég byrja á HS Orku, herra forseti, þá hafa tekjur hennar vegna sölu á þessum ábyrgðum frá árinu 2011, verið 140 milljónir. Þar af eru 107 milljónir frá 1. janúar 2016. Engar upprunaábyrgðir frá HS Orku hafi verið seldar til einstaklinga eða annarra almennra raforkunotenda á Íslandi og allir viðskiptavinir fyrirtækisins, að stóriðju undanskilinni, hafa upprunavottorð á raforku. Þarna kem ég að merg málsins. Stóriðjan fengi ekki upprunavottorð þó að hún myndi biðja um það af því að það er ekki til, af því að það er búið að selja það. Nema þá að borga fyrir það í samkeppni við erlend fyrirtæki. Það er mergurinn málsins. Og hvert leiðir það okkur? Það leiðir okkur til hærra raforkuverðs. Ég hef lokið ræðutíma mínum en mun halda áfram í næstu ræðu.