149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög áhugaverð samantekt sem hv. þingmaður hefur verið að fjalla um varðandi upprunaábyrgðir. Ég velti fyrir mér, ég er að reyna að rifja það upp í kollinum að það voru nokkuð margir aðilar sem vöruðu við þessu, ef ég man rétt, á sínum tíma. Þar á meðal borgarfulltrúi Miðflokksins, þáverandi hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, ef ég man rétt, og gerði það mjög kröftuglega.

Ég velti því hins vegar upp hvort það hafi verið mistök á sínum tíma að heimila eða gangast undir þetta system með upprunaábyrgðirnar. Er spurningin þá hvort hv. þingmaður hafi skoðað það eitthvað hvort unnt sé að taka skrefið til baka. Í öðru lagi finnst mér mjög áhugavert að þingmaðurinn rifji upp þessar tölur, þessar upphæðir sem ráðherrar hafa svarað, og kom fram með hér fyrir þingið að felist í þessum viðskiptum.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann eða kannski biðja hann að útskýra aðeins betur fyrir okkur annaðhvort í andsvari, ef ekki, þá í annarri ræðu, hvernig og hvaða áhrif þetta hefur á raforkuverðið? Það er reyndar mjög merkilegt ef það er þannig að fyrirtæki á Íslandi, íslensk stóriðja, svo dæmi sé tekið, geti ekki fengið þessar upprunaábyrgðir nema þá að kaupa þær í samkeppni við erlend stóriðjufyrirtæki, þar sem þessi stóriðjufyrirtæki hér eru keyrð bara á hreinni orku, upprunalegri orku. Þau eru að keppa við fyrirtæki eða kaupa sér einhvers konar aflátsbréf á sama tíma og þau jafnvel nýta kol eða olíu til að framleiða sína vöru.