149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Er ekki eitthvað undarlegt við það að fyrirtæki á Íslandi sem notar eingöngu endurnýjanlega orku, vatnsafl eða jarðhita, vind þess vegna, þurfi að borga sérstaklega fyrir það að fá þessi vottorð, eins og ég skil hv. þingmann? Er ekki svolítið undarlegt við það að þurfa að borga fyrir slíkt? Og sitja á sama tíma við sama borð og aðili í Evrópu sem framleiðir sams konar vöru eða svipaðar vörur með kolum eða olíu? Ef ég hef skilið þetta rétt. Er það ekki sérstakt ef við erum búin að setja upp kerfi sem virkar svona, kerfi sem kannski miðar í rauninni eingöngu að því að auka tekjur orkufyrirtækjanna?

Ég ítreka hinar spurningarnar sem ég var með um hvernig raforkuverð kemur til með að hækka vegna þessara viðskipta.

Hv. þingmaður nefndi það t.d. að vegna þess að stóriðjan fær ekki þessi vottorð heldur þarf að kaupa þau, að þá sé það hluti af heildarmyndinni sem leiðir til hækkunar á raforkuverði. Það er kannski lengri umræða, ég geri mér grein fyrir því. Þetta er hins vegar áhugavert út frá þeirri staðreynd að við erum í dag að fjalla um mál sem færir okkur enn dýpra inn í Evrópusamstarfið á raforkumarkaði, þar sem orkan er í rauninni verslunarvara og verður gerð núna í framhaldinu að enn meiri verslunarvöru undir þessari ríkisstjórn hjá Vinstri grænum.