149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:26]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Hann kom inn á það að stóriðjunni væri e.t.v. alls ekki sama um uppruna raforku sinnar og nefndi dæmi þess að álver hérlendis hefði stært sig af því að það væri að framleiða ál og kallaði framleiðslu sína grænasta ál í heimi, sem það er hugsanlega.

Hvert er gildi þessara vottorða og hvert verður gildi þessarar vottorða? Evrópusambandið er með orkustefnu, það er ekki bara vottorðakerfið sem þeir vinna, til að auka framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Það er tilgangurinn. Það er markmiðið vegna þess að það er meiri eftirspurn eftir henni. Þess vegna leita þeir sem hyggjast reisa orkuver fremur að orkugjöfum sem eru endurnýjanlegir til að selja og reisa þeim mun frekar vindorkuver eða vatnsorkuver en kjarnorkuver vegna þess að þeir vita það fyrir fram að þeir fá hærra verð fyrir það. Búið er að búa til markað. Ég ætla að lesa upp úr ansi skemmtilegu svari sem er grunnurinn í þessu svari frá hæstv. ráðherra:

„Orkugjafarnir sjálfir eru vitaskuld auðlind. Við höfum talað fyrir því.“ — En svo bætir hún við: „En líta má á hreinleika þeirra sem sjálfstæða auðlind út af fyrir sig.“