149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir svarið. Þingmaðurinn kom inn á það í ræðu sinni áðan að töluverð viðskipti hefðu verið með það sem mér er tamt að kalla aflátsbréf. Ég held að margir noti sama hugtak fyrir sölu upprunavottorða þó að það sé kannski ekki tæknilega hárrétt. Það má segja að það fari nær því að lýsa þeim viðskiptum svo sem þarna eiga sér stað en með hinu tæknilega hugtaki sem plaggið ber.

Þetta eru auðvitað aflátsbréf í þeim skilningi að menn kaupa sig til betri stöðu en þeir verðskulda raunverulega. Þingmaðurinn kom inn á það áðan að á árinu 2017 hefðu þetta verið viðskipti upp á um 800–850 milljónir, sem sagt viðskiptaskilmálar og sala aflátsbréfa þessara innlendu orkuframleiðenda.

Hefur þingmaðurinn eitthvað skoðað þróun síðari tíma, árið 2018 eða mögulega eitthvað inn í 2019 og séð hver þróun verðs á þessum aflátsbréfum hefur verið? Því að bilið 0,2–2 evrur á megavattstund, ef ég skildi hv. þingmann rétt, er vítt bil. Ég velti fyrir mér hvort þróunin sé áfram í átt til hækkunar þannig að það geti verið hluti þeirra hagsmuna sem orkufyrirtækin eru að verja, þ.e. að geta áfram selt þessi upprunavottorð, sem segja má að séu hvalreki fyrir þau, kerfislegur hvalreki. Það er ljóst að engin útgjöld hafa fylgt þeim tekjustraumi sem þarna verður til.