149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég tók sérstaklega eftir þessu viðtali við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur á vefmiðlunum í dag. Hv. þingmaður vakti töluverða athygli mína fyrir að halda þar uppteknum hætti við að koma á framfæri rangfærslum sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Auk þess segir hv. þingmaður í viðtalinu að Miðflokkurinn sé að stoppa allt í þinginu og hér komist engin mál á dagskrá vegna þess að Miðflokkurinn stoppi allt. Það er einfaldlega rangt vegna þess að Miðflokkurinn — og rétt að halda því til haga — hefur boðið það að málið verði tekið út af dagskrá og önnur mál sett fyrir framan, eins og fjármálastefnan, heilbrigðisstefnan, fjármálaáætlun o.s.frv. Það er því ekki við okkur Miðflokksþingmenn að sakast í þeim efnum. Það er rétt að halda því til haga. Við höfum boðið stjórnarflokkunum og ríkisstjórninni að greiða fyrir málum á þinginu og setja þetta mál til hliðar á meðan.

En það sem mig langaði að nefna við hv. þingmann er að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir einnig í viðtalinu að Miðflokkurinn vilji hverfa aftur til gamla tímans þar sem gagnsæi um orkuverð var ekkert. Ég held að hv. þingmaður átti sig ekki á því en ég segi það hér og nú að ég vil hverfa aftur til gamla tímans vegna þess að þá var rafmagn til heimila og fyrirtækja í landinu mun ódýrara en er í dag.

Mig langar að fá fram hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) hvort ekki sé nauðsynlegt að leiðrétta svona rangfærslur. Að enn og aftur skuli farið með slíkar rangfærslur er náttúrlega ámælisvert, herra forseti.