149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það kom fram greinilega í sjö-fréttum sjónvarpsins núna áðan að almenningur í landinu vill fá meiri kynningu á orkupakka þrjú. Það kom fram. Almenningur vill fá þessa kynningu. Hann vill að talað sé við hann. Þetta er einmitt það sem við höfum haldið fram sem höfum verið að malda í móinn í nokkurn tíma yfir því að kynning þessa máls, jafn illa og það er úr garði gert, hafi verið í algeru skötulíki.

Þess vegna er það enn brýnna en áður. Ég held að rýna megi þannig í skilaboðin, þau svör sem komu fram áðan þegar fólkið á götunni var spurt hvað því fyndist, þannig að almenningur, þjóðin vilji að þessu máli sé frestað til hausts og að sá tími sé notaður til frekari kynningar til þess að ná breiðari samstöðu um málið, sem er nauðsynlegt, algerlega nauðsynlegt.

Fyrrverandi forseti lýðveldisins talaði einu sinni um það þegar stórt mál var undir að gjá væri milli þings og þjóðar. Ég held að sú gjá hafi opnast aftur.

Það er okkar sem erum hér á þingi að sjá til þess að sú gjá lokist. Það er okkar að byggja brú yfir þessa gjá milli Alþingis og þjóðarinnar. Það gerum við ekki með því að keyra þetta mál í gegn í offorsi, í blóra við vilja almennings. Við gerum það ekki þannig.

Því var haldið fram hér úti á tröppunum áðan af forseta Alþingis að Miðflokkurinn væri að misnota þingræðið. Það er alrangt. Miðflokkurinn og við sem stöndum í baráttunni erum að vernda og verja lýðræðið. Og hvað hefur þessi barátta nú í nokkra daga og nokkrar nætur haft í för með sér? Jú, einmitt það sem fram kom hjá fólkinu á götunni rétt áðan. Fólkið í landinu vill að talað sé við það. Það vill að komið sé fram við það eins og fólk. Það vill ekki láta troða ofan í hálsmálið á sér einhverju máli sem meiri hluti þjóðarinnar er á móti. Það vill ekki láta bjóða sér upp á að hér séu stigin afdrifarík skref sem ekki er hægt að leiðrétta með góðu móti. Fólkið í landinu krefst þess einfaldlega að við sem skipum þetta löggjafarþing vinnum málin með vönduðum hætti sem við erum með til úrlausnar hverju sinni.

Herra forseti. Upp á það hefur skort í þessu máli. Fyrir nokkrum dögum og nokkrum nóttum síðan hófum við Miðflokksfólkið að ræða þetta mál djúpt. Á hverjum einasta degi, eða hverri einustu nóttu, hafa komið fram nýjar upplýsingar — á hverjum einasta degi — sem styrkja þá umræðu sem við höfum staðið fyrir, sem styrkja þá skoðun okkar að málið sé illa úr garði gert, á því séu verulegir annmarkar, að það brjóti jafnvel í bága við stjórnarskrá og að í því felist stærra og meira valdaafsal en nokkru sinni fyrr.

Það eru þau atriði sem fólkið í landinu hefur áhyggjur af. Það vill ekki að framtíð barna þess og barnabarna sé ofurseld erlendu valdi. Það vill ekki að gengið sé á svig við stjórnarskrá lýðveldisins.

Herra forseti. Þess vegna á að fresta þessu máli nú þegar og taka það upp þegar líður á árið.