149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég heyrði líka þetta viðtal við hæstv. forseta Alþingis og velti fyrir mér hvort áhyggjur hans af þingræðinu miðuðust við einhverja sérstaka tímalengd umræðunnar. Því að öll þekkjum við að hæstv. forseti hefur ekki sparað ræðustólinn sérstaklega á sínum þingtíma.

Það er hins vegar svolítið öfugsnúið að saka þá sem vilja ræða efnislega um þingmál, spyrja spurninga og leita svara, um að vera að vinna gegn þingræðinu, meðan þingmenn, sumir hverjir, taka ekki þátt í umræðunni. Ég hygg að það væri kannski nær að velta því fyrir sér hvort þingræðið virki þannig að menn geti bara þagað, ekki svarað spurningum, ekki tekið rökræðuna eða hrakið það sem við segjum, ekki svarað spurningunum sem við höfum fram að færa og e.t.v. reynt að telja okkur hughvarf í málinu, þ.e. fá fleiri til fylgis við málið.

Nema það sé þannig vaxið að hv. þingmenn treysti sér ekki til að standa hér og tala fyrir þessu máli. Eða öllu heldur svara þeim spurningum sem vaknað hafa.

Hér hafa örfáir þingmenn talað fyrir málinu en orð þeirra og ræður hafa frekar vakið upp spurningar en hitt.

Mig langar að spyrja þingmann hvort það sé einhver ástæða til að halda að þetta stóra orkupakkamál geti með einhverjum hætti verið lærdómur fyrir þingið, þ.e. að þegar uppi eru mál af þessari stærðargráðu verðum við að hvetja þingmenn til að taka þátt í þeim.