149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi í svari sínu, sem ég þakka fyrir, orð forsætisráðherra í dag, eða réttara sagt skrif héraðsdómarans Arnars Þórs Jónssonar vegna orða forsætisráðherra þar sem forsætisráðherra er nú nokkuð leiðréttur, mjög pent, og bent á að það sé ekkert í þessu máli öllu sem ríkisstjórn er búin að búa til sem komi í veg fyrir að einkaaðili kunni að höfða mál gegn ríkinu. Telja sumir lögmenn að það mál myndi tapast hjá ríkinu og benda þeir á ýmis rök fyrir því.

Þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi sagt að engir lögmenn hafi aðra skoðun en hún hélt fram hafa a.m.k. fjórir lögmenn sagt annað. Fyrst ber að nefna nýjustu skrifin, þau skrif sem héraðsdómarinn sem ég nefndi áðan ritaði. Eyjólfur Ármannsson varar í greinargerðum sínum við orkupakkanum. Hann starfar í Noregi.

Síðan er það nú þannig að þeir félagar, Stefán Már og Friðrik Árni, benda á það í neðanmálsgrein 62 að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis sem vill sjálft leggja rafstreng og tengja, gæti fyrirtæki snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.

Er þetta ekki eitthvað sem ástæða er til að skoða ofan í kjölinn? Það er engin skömm að því að taka mið af nýjum upplýsingum sem koma fram, ef stjórnarmeirihlutinn vill taka slíkri leiðbeiningu. Hann þarf ekki að hlusta á okkur.