149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mjög þörf umræða sem hv. þingmaður opnaði, þ.e. um gjána milli þings og þjóðar. Mjög mikilvægt er í þessu sambandi að almenningur sé vel upplýstur um þetta mál vegna þess að það varðar komandi kynslóðir. Það varðar áratugi fram í tímann.

Ég hef sagt áður að það virðist vera svona eitthvað í þjóðarsálinni; manni finnst stundum að Íslendingar hugsi ekki nógu langt fram í tímann. Kínverjar hugsa 100 eða 200 ár fram í tímann. Margar þjóðir eru með ýmsar áætlanir. Við sjáum að Evrópusambandið er með áætlanir, eins og fram kemur í skýrslu á vegum ráðherranefndarinnar, um einmitt orkumálin. Þeir hugsa a.m.k. til ársins 2050.

Í því ljósi er náttúrlega mjög einkennilegt áhugaleysi margra þingmanna á málinu. Mér telst til að það séu u.þ.b. 20 þingmenn sem hafa ekkert tekið til máls í þessu stóra og mikla máli. Talað er um að 52 þingmenn séu fylgjandi þessu en 20 sem hafa aldrei tjáð sig um málið. Sem sýnir að full þörf er á að ræða málið. Að halda því fram að þetta sé fullrætt, við séum að tefja málið eru náttúrlega útúrsnúningar.

En þetta er innlegg í umræðuna, þ.e. um gjá milli þings og þjóðar, eins og hv. þingmaður nefndi. Er það ekki hlutverk okkar að halda uppi virkri umræðu og upplýsingaöflun til almennings og að (Forseti hringir.) þingmenn verði virkir í umræðunni? Er það ekki til að reyna að brúa þessa gjá?