149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þeir sem eru ekki á sama máli og við þurfa ekkert að hlusta á okkur. Þeir þurfa ekkert að taka mark á okkur. Þeir þurfa að hlusta á ráð færustu sérfræðinga á Íslandi og taka mark á þeim og bera gæfu til þess að segja við sig sjálfa: Er ekki rétt að athuga þetta mál aðeins betur?

Nú horfi ég t.d. til hæstv. forsætisráðherra, sem er kona sem ég ber mikla virðingu fyrir og hef tröllatrú á. Nú þegar hún er búin að átta sig á því að það sem hún sagði í gær er ekki alls kostar rétt — vegna þess að það eru til lögmenn, ekki bara einn, ekki bara tveir, sem segja: Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn eru á rangri braut í þessu máli, góðfúslega snúið af þeirri braut og vinnið málið betur, frestið því, leitið að betri fyrirvörum, haldbetri, eða réttara sagt: Farið að ráðum bestu manna og hafnið pakkanum og sendið hann í sáttaferli í sameiginlegu EES-nefndinni.

Ég hef tröllatrú á því að hæstv. forsætisráðherra muni bregðast við. Ég hef tröllatrú á því. Hún má vera viss um að ef hún og stjórn hennar gerir þetta get ég sagt við hæstv. forsætisráðherra: Hún gengur ekki ein í því máli ef hún vill fara betri leið en áður.