149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég myndi halda því fram að ef menn nota fyrsta og annan orkupakkann sem rökstuðning fyrir óhjákvæmileika þess að innleiða þann þriðja verði fyrir vikið ekki aðeins erfiðara að hafna innleiðingu þess fjórða heldur geti það orðið nánast ómögulegt.

Ástæðan fyrir því að ég tel að þetta sé svona er annars vegar sú að fyrsti og annar orkupakkinn hétu upphaflega fyrsta og önnur raforkutilskipunin og voru tilskipanir, ólíkt reglugerðunum sem mynda þriðja orkupakkann. Tilskipanir gefa ríkjunum meira frelsi til að aðlaga þær að aðstæðum — frelsi sem Íslendingar nýttu hins vegar ekki heldur gerðust þeir kaþólskari en páfinn, eins og menn hafa nefnt fyrr í umræðunni.

En þriðji orkupakkinn samanstendur hins vegar af reglugerðum sem beinlínis kalla á framhald. Þær eru nánast eins og grunnur sem þriðji orkupakkinn er byggður á. Það má líkja því við að fyrsta og önnur raforkutilskipunin hafi verið nokkurs konar bráðabirgðahúsnæði eða tjöld sem hægt væri að færa til. En með þriðja orkupakkanum er verið að steypa grunn. Og svo sjáum við hvernig teikningarnar eru. Við sjáum hvað Evrópusambandið ætlar að byggja þar ofan á. Það er reyndar byrjað á því með breytingum á þriðja orkupakkanum. Og svo kemur sá fjórði.

Spurningin er þessi, herra forseti: Hverjar verða varnir Íslands gagnvart breytingum á þriðja orkupakkanum sem þegar hafa verið innleiddar í Evrópusambandinu og svo fjórða orkupakkanum ef menn klára að innleiða þann þriðja að fullu, eins og stefnir í?