149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:45]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það er alveg rétt að raforka og orka er ein af grunnstoðum samfélags okkar og alla vega fannst mér ég lesa úr frétt Ríkissjónvarpsins áðan að við ættum ekki að fara með hana sem samkeppnisvöru heldur líta á hana sem grunnstoð okkar og eina af grunngildunum, ef ég get orðað það þannig.

Mig langar að venda kvæði mínu í kross. Ég hef töluvert velt því fyrir mér hver snertiflöturinn væri gagnvart stjórnarskránni og mögulegu stjórnarskrárbroti ef við færum boðaða leið ríkisstjórnarinnar. Mig langar að minnast viðtals í Morgunblaðinu frá því rétt fyrir áramótin 2018 þar sem haft var eftir hæstv. ráðherra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur að hún teldi að það færi töluvert nærri stjórnarskránni að fara þá leið. Mig minnir að hún hafi látið þau orð falla í þingsal.

Ég inni hv. þingmann eftir því hvað hann telji hafa gert það að verkum að hæstv. ráðherra virðist hafa skipt um skoðun þar sem núna eigi að koma málinu hratt og örugglega í gegn og því er haldið fram að þetta sé ekkert mál sem snerti okkur ekki á neinn máta, ef svo má segja.