149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, hér hafa bæði hv. þingmenn og fyrrverandi ráðherrar skipt rækilega um skoðun í þeim efnum. Við höfum svo sem tíunda það að mesta athygli vekja sinnaskipti Vinstri grænna. Þau voru á móti orkupakka eitt og tvö á sínum tíma og fluttu góðar ræður og lögðu fram haldbær rök í þeim efnum. Hins vegar vilja þau sem minnst vita af þessari umræðu núna og tjá sig ákaflega lítið um hana, sem vekur náttúrlega eftirtekt. Það er ekki að sjá annað en að sá flokkur hafi hreinlega fallið frá hugsjónum sínum hvað þetta varðar og sé farinn að aðhyllast markaðslausnir og markaðskerfi með því að styðja það að við verðum þátttakendur í markaðsvæðingu raforkunnar á sameiginlega Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta eru mikil sinnaskipti hjá flokki sem hefur ekki verið talinn markaðssinnaður flokkur, svo vægt sé til orða tekið.

Þetta vekur allt mikla athygli. Ég hef sagt áður að mér finnst þá að þessir aðilar, þeir hv. þingmenn og þeir flokkar sem hafa skipt svona rækilega um skoðun, skuldi kjósendum útskýringar á því hvers vegna. Síðan er það annað rannsóknarefni hvernig þeir fara á skjön við grasrótina og stuðningshóp sinn.